• Nafnasamkeppni

    March 27, 2014

    Síðastliðið sumar efndi Sirkus Íslands til söfnunar á vefnum Karolinafund til að eignast eigið sirkustjald. Þjóðin var jafnspennt og trúður í tertubúð – og söfnuðust sex og hálf milljón. Sirkusinn lagði svo fram meira en tvöfalda þá upphæð til að kaupa tjaldið. “Það var ótrúlega gaman að fá að vera hluti af þessu verkefni og frábært að sjá hversu vel þjóðin tók í söfnunina. Sirkus Íslands sýndi þarna hvað fólk getur áorkað miklu með samvinnu og þau sýndu hve mikill styrkur leynist þarna úti í samfélaginu okkar. Þau fengu nálægt því 700 manns með sér til þess að reisa sirkustjald sem þau ein og sér hefðu annars ekki getað gert,” segir Ingi Rafn Sigurðsson hjá Karolina Fund.

    Sirkus Íslands leitar aftur til þjóðarinnar – en í þetta sinn vantar nafn á tjaldið. Við munum ferðast með það um landið komandi sumur og sá sem finnur besta nafnið fær fjóra miða á frumsýningu næsta sumar. Hugmyndir að nafni skulu sendast með tölvupósti á tjald@sirkusislands.is.

    image

    Tjaldið er tólf metra hátt og áhorfendabekkirnir eru fyrir 400 manns. Það er glænýtt og er klæðskerasniðið að Sirkus Íslands. Á meðfylgjandi mynd sést hvernig tjaldið mun líta út og hversu stórt það er miðað við áhorfanda í jakkafötum. Með í för verða 20 íslenskir sirkuslistamenn auk erlendra gesta.

    Fljótlega eftir söfnunina fóru meðlimir sirkussins til Ítalíu til að láta búa til tjald. Ítalir eru þekktir fyrir að gera bestu sirkustjöldin, og leitaði Sirkus Íslands til Fratelli Grego, eða bræðranna Grego, sem er fjölskyldufyrirtæki sem hefur búið til sirkustjöld í margar kynslóðir. Í dag leggur tjaldið af stað frá Ítalíu með áhorfendabekkjum og tæknibúnaði – en sjálft sviðið er smíðað í Reykjavík.

    Næsta sumar verður því fyrsta íslenska sirkussumarið. Það er að mörgu að huga á svona sérstöku ferðalagi. TVG Zimsen hjálpar sirkusnum að koma tjaldinu til landsins og að flytja það á milli landshluta næsta sumar. „Þetta er án efa eitt óvenjulegasta og skemmtilegasta verkefni sem TVG-Zimsen hefur tekið þátt í. TVG-Zimsen mun sjá um að alla skipulagningu, framkvæmd og flutning á búnaði fyrir Sirkus Ísland, meðal annars flutning á nýju, fullkomnu sirkustjaldi frá Ítalíu til Íslands. Ljóst er að Sirkus Ísland á eftir að verða fyrirferðamikill í þjóðlífinu þar sem hann verður staðsettur í sumar á Klambratúni og um land allt. Við erum afar ánægð með að styrkja Sirkus Íslands sem mun vafalítið vekja mikla eftirtekt og ánægju meðal allra aldurshópa hér heima í sumar enda mikill metnaður á bak við starf Sirkus Ísland sem á erindi við alla,“ segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen en fyrirtækið er aðalstyrktaraðili verkefnisins ásamt Coca Cola.

    Frekari upplýsingar um ferðalagið sjálft, og á hvaða stöðum sirkustjaldið mun rísa koma síðar.

    www.sirkusislands.is

    facebook.com/Sirkus-ìsland

    www.sirkusislands.tumblr.com

    twitter.com/sirkusislands