Skinnsemi

Skinnsemi er sirkussýning fyrir fullorðna sem sett er saman úr glæsilegum sirkusatriðum, burlesque, fíflagangi og fullorðinshúmor svo úr verður háklassa kabarett sýning.

Skinnsemi hefur vaxið og þróast hjá Sirkus Íslands frá árinu 2011 en þangað til hafði sirkusinn aðeins framleitt fjölskyldumiðað efni.
Skinnsemi er því tækifæri íslensks sirkus- og sviðslistafólks til að sleppa af sér beislinu og segja alla brandarana sem ekki eiga heima í fjölskyldusýningum.

Skinnsemi er sýnd reglulega á skemmtistöðum, í leikhúsum og að sjálfsögðu í sirkustjaldinu okkar, Jöklu, sem hluti af sýningarferðalögum sirkusins.
Á Skinnsemi er 18 ára aldurstakmark. Fyrirmyndin er burlesque og vaudeville-sýningar annars og þriðja áratugarins en formið var endurvakið á tíunda áratugnum í Bandaríkjunum.

Sirkusinn leggur sig fram við að smíða ný atriði fyrir hverja uppsetningu af Skinnsemi.Meðal þess sem boðið hefur verið upp á er rekkjubragðakennsla, búðingamagadans, loftfimleikar, listaverkauppboð, flóttalistir, jóðl, blöðrustripp, húllaatriði, brúðuleikhús og skuggaleikur.
Að auki hafa nokkur Íslandsmet verið sett – eins og að losa brjóstahaldara blindandi á einni mínútu. Metið er núna 5 stykki. Sjón er sögu ríkari – sjáumst á næstu Skinnsemi.

 

“Ég mæli heils hugar með þessari kvöldstund í félagsskap hálfnakins fólks sem fettir sig og brettir á ögrandi og siðferðislega vafasaman hátt. Blygðunarkennd mín naut kvöldsins til fullnustu.”
-Atli Freyr Steinþórsson, stúdent og bóhem

“Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég mætti á fyrsta sirkusinn. 1500 kall er gefins fyrir sterasprautu í hláturtaugarnar. Má ég borga meira?”
-Guðrún Inga Torfadóttir, lögfræðingur

“Þetta kvöld var stórsnilld. Ég hef sjaldan hlegið eins mikið að berrössuðu fólki. Af hverju eru ekki fleiri að gera svona sniðugt?”
-Jón Eðvald Vignisson, internetprins

“Þetta var miklu meira en skemmtilegt. Ég er hér með komin í harðkjarnahóp aðdáenda.”
-Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur

“Tárin streymdu niður kinnar mér og ég lá í tryllingslegum hláturskrampa.”
-Arnór Bogason, grafískur hönnuður