• Söfnun fyrir tjaldi

    July 18, 2013

    Sirkús Íslands lætur drauminn rætast og safnar fyrir sirkústjaldi – Stærsta hópfjármögnun á Íslandi frá upphafi!

    Sirkús Íslands sló í gegn á Volcano-sirkúslistahátíðinni sem nú er nýafstaðin. Loksins fékk sirkúsinn að sýna í alvöru sirkústjaldi – en nú eru öll tjöldin farin aftur til síns heima, til Noregs. Við erum hins vegar komin með sirkústjaldsbakteríuna. Við ætlum að safna fyrir alvöru sirkústjaldi og ef það tekst munum við ferðast um landið næsta sumar með sýningar fyrir börn og fullorðna auk sirkúsnámskeiða. Söfnunin fer fram í gegnum Karolina Fund og verður þetta stærsta hópfjármögnun Íslandssögunnar. Við heitum Sirkús Íslands, ekki Sirkús Reykjavíkur, og með tjaldinu getum við staðið undir nafni og sett upp sirkússýningar um allt land.

    Af hverju að safna fyrir sirkústjaldi?
    1. Við viljum bjóða öllum upp á alvöru íslenska sirkússkemmtun. Húsnæði á Íslandi hentar misvel til sirkúsbragða, en í hverju einasta bæjarfélagi er landsspilda til að reisa tjald.
    2. Í Sirkús Íslands eru 25 einstaklingar, og þar af níu sem vinna í fullu starfi við sirkúsinn. Í haust fara þrír til náms í sirkúslistum og í framtíðinni munu fleiri sem ólust upp í sirkúsnum fara utan til náms. Með sirkústjaldi verður til raunveruleg sirkúsframtíð á Íslandi.
    3. Á sirkúslistahátíðinni Volcano sýndi Sirkús Íslands átján sýningar á tíu dögum – og var uppselt á allar. Íslendingar hafa áhuga á íslenskum sirkús og við eigum aðdáendur á öllum aldri og brátt um allt land.

    Ef við náum að safna fyrir tjaldinu munum við ferðast um landið næsta sumar og bjóða upp á frábærar fjölskyldusýningar á daginn og fullorðinssirkúsinn Skinnsemi á kvöldin. Við munum heimsækja Snæfellsnes, Vestfirði, Norður-, Austur- og Suðurland auk þess að koma fram í Reykjavík. Við munum líka bjóða upp á sirkúsnámskeið fyrir börn og unglinga í tjaldinu auk fullorðinsnámskeiða í sirkúslistum, grippli (juggle), húlla og dansi svo eitthvað sé nefnt.

    styrkja takki
    Nánari upplýsingar veita:
    Lee Nelson, sirkússtjóri
    Margrét Erla Maack, sirkúsdýr, s. 6632548

    DPP_0001 copy